- Í framkvæmd
- Fyrri framkvæmdir

TIL SÖLU! Case cx 290 beltagrafa. Árg.2003. 32t.
30.12.2005 - Frumvarp til breytinga á umferðalögum

Í þessu frumvarpi sem þarna er á ferðini er verið að styrkja lögin er varða akstur og hvíldartíma. Ég tel það vera hið besta mál og reyndar nauðsynlegt að löggjafinn geri lögin um akstur og hvíldartíma virk, hinsvegar er þörf á að aðlaga lögin að aðstæðum hér á landi t.d. með tilliti til verktaka sem vinna í 10-11 daga úthöldum og taka síðan 3-4 daga í frí ofl. En eins og ég sagði hér að ofan tel ég nauðsynlegt að til séu virk lög svo refsa megi mönnum fyrir gróf brot ef það er rétt sem Sævar Ingi Jónsson deildarstjóri umferðareftirlits vegagerðarinnar hélt fram í viðtali við Rúv þann 13 des s.l.. Þó ég hafi ekki neina haldbæra vitneskju um það hvað liggur þarna að baki orðum Sævars þá leyfi ég mér að efast um að þetta sé rétt, þ.e.a.s. að brot þessi fari sí vaxandi, mín tilfinning er allt önnur og tel ég að ástandið í þessum málum hafi farið sí batnandi á síðustu árum. Því til stuðnings vil ég benda á heimasíðu samgönguráðherra en þar kemur fram eftirfarandi ,,Aukin umferð flutningabíla á helstu akstursleiðum hefur ekki leitt til fjölgunar slysa og óhappa þar sem þungir bílar koma við sögu. Tíðni á hverja milljón ekna kílómetra hefur lækkað. Árið 2003 kemur reyndar fram umtalsverð fækkun slysa og óhappa, en líkleg ástæða hennar er talin vera aukin áhersla á öryggisstjórnun hjá flutningsaðilum.’’ Einnig veitti ég því athygli að skráningablað það er Sævar sýndi sjónvarpsmönnum til stuðnings máli sínu var greinilega búið að nota dögum eða vikum saman og sagði ekkert um það hvað ekið hafði verið lengi án hvíldar, gæti til dæmis hafa verið notað í bíl sem undanþegin er notkun ökurita. Í fréttum nokkrum dögum fyrr kom ábending frá landsambandi lögreglumanna, þess efnis að ekki væri ásættanlegt að veita ætti eftirlitsmönnum vegagerðarinnar vald til að stöðva bifreiðar og gera á þeim þær athuganir sem lagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Þessa frétt tel ég vera ástæðu þess að Sævar kom fram í sjónvarpi með fyrr greindar fullyðingar og voru þær að mínu mati til þess gerðar að beina athygli frá því sem landsamband lögreglumanna benti á og slá ryki í augu manna. Stóri gallin á þessu frumvarpi er hins vegar sá að í því er gert ráð fyrir auknum heimildum til handa eftirlitsmönnum vegagerðarinnar eins og áður hefur komið fram hér á síðuni.

Það er undarlegt að það skuli teljast nauðsynlegt að gera út sérstaka sveit manna til að halda uppi lögum og reglum er varða atvinnubílstjóra sérstaklega. Tvöfallt eftirlitskerfi eins og þetta mun alltaf verða dýrara í rekstri fyrir ríkið og því miður mun máttlausara heldur en ef lögreglu yrði falið að sjá um þetta eftirlit eins og annað eftirlit og má þar nefna að lögregla getur sinnt öllum þáttum eftirlits svo sem með hraða og öðru sem eftirlitsmenn vegagerðarinnar geta ekki. Með þessu er hægt og bítandi verið að koma upp eftirlitskerfi þar sem ekki er krafist viðeigandi menntunar þess starfsfólks sem þar starfar, með öðrum orðum þarna eru lítið eða ómentaðir einstaklingar að ganga í störf lögreglumanna og bifreiðaskoðunarmanna.

Við sem tengumst þessari atvinnugrein sem eftirlitið nær til höfum því miður flestir orðið varir við mikin mun á því að eiga samskipti við eftirlitsmenn vegagerðarinnar og hins vegar lögreglu, þar kemur greinilega í ljós hversu lögreglumenn eru almennt hæfari í samskiptum við borgarana. Einnig þekkja lögreglumenn sín takmörk almennt betur og eru ekki haldnir sama valdhrokanum sem gætir hjá sumum eftirlitsmönnum vegagerðarinnar. Atvinnubílstjórar og atvinnurekendur í stéttinni eiga tvímælalaust þann rétt eins og aðrir þegnar landsins að eftirlit með þeim sé faglegt og unnið af mönnum sem hafa til þess menntun. Megum við kannski vænta þess að þessari stétt manna verði boðið upp á heilbrigðisþjónustu hjá slátraranum í SS í stað læknis?

Eftir samtöl mín við fjölmarga í stéttini og sem tengjast henni finn ég að menn eru sem næst einróma á því að þetta eftirlit eigi heima hjá lögreglu gallinn er bara sá að menn bölva bara í hljóði og láta þetta ganga yfir sig án mótmæla Því skora ég á alla þá er málið varðar að fylgjast grant með og láta þetta ekki yfir sig ganga, heldur þrýsta á að eftirlitið verði fært til lögreglu þangað sem það tvímælalaust á heima.

Til baka

GV Gröfur - Frostagötu 4a-b, 603 Akureyri - Sími: 462 5700, Fax: 462 5701 - gvgrofur@gvgrofur.is - www.gvgrofur.is